Umhverfiskvíði og mikilvægi sjálfs-umhyggju

kvidaulfurkvidaulfur

Samtöl um umhverfismál eiga sér oft stað á netinu eða í lokuðum vina/fjölskyldu hittingum en okkur í Endur Hugsa langar að bjóða uppá almennan vettvang til þess að ræða málin í eigin persónu. Á viðburðinum okkar næsta miðvikudag 20. júní langar okkur m.a. að ræða umhverfiskvíða og sjálfs-umhyggju.

En hvað er umhverfiskvíði og hvers vegna er sjálfs-umhyggja mikilvæg meðfram umhverfisverndarbaráttu?  Við erum engir sálfræðingar en við notum orðið umhverfiskvíða til að lýsa ástandi sem við sjálfar finnum okkur stundum í þegar við reynum að horfast í augu við umhverfisvandamál heimsins. Sú upplifun að standa frammi fyrir einhverju óhugsandi stóru og kraftmiklu og finna fyrir smæð sinni – The Sublime (Hið háleita – hið ægifagra) – mætti tala um í sambandi við umhverismál. Hegðun sem heilt alheimssamfélag tekur þátt í nú (losun kolefnis, dreifing örplasts, almenn offramleiðsla, eyðing lífríkja undir ræktarland og borgir) mun valda óafturkræfum afleiðingum, hafa áhrif á næstu kynslóð og allar þar á eftir. Þetta er rosalega stórt!

Annaðhvort finnst okkur við gera nóg eins og er, eða vita ekki hvar á að byrja, eða of margt sem stendur í vegi fyrir breytingum þrátt fyrir þekkingu og góðan vilja.

Við viljum alls ekki ala á samviskubiti, heldur bjóða upp á að samtal og stuðning.

Við trúum því að sjálfskoðun, sjálfsþekking, sjálfs-umhyggja (e. self care) og stuðningur við hvort annað sé mjög mikilvæg samhliða því að taka stór og lítil skref í átt að sjálfbærari lífstíl og samfélagi.

Við viljum fá að heyra hvað þið eruð að gera daglega, hversdagslega umhverfisvæna vana, hvað þið hafið sérstaklega áhyggjur af, lausnir sem ykkur dettur í hug eða dreymir um fyrir samfélagið. Við viljum skiptast á ráðum og læra af hvort öðru, en það má líka segja hvað þetta sé allt saman er erfitt og hvað maður er ekki tilbúinn að gera! Það má líka taka sér pásu á umhverfisbárattunni, hugsa smá um sjálfan sig, og varðveita orkuna sína!

En margt smátt og stórt og mikið þarf að breytast í okkar samfélagi ef við ætlum að stöðva eða snúa við áhrif mannsins á umhverfið.

Það er auðvelt að lamast frammi fyrir gríðarstórum áskorunum, en þó manni finnist maður ekki vera að gera neitt, þá finnst okkur í Endur Hugsa mikilvægt að gefa sér tíma bara til þess að hugsa.

Á ferðalagi okkar að sjálfbærari sjálfi og samfélagi getur verið gott að staldra við og velta fyrir sér óræðum og mögulega ósvaranlegum spurningum, til þess að dýpka skilning sinn á samhengi og sambandi mannsins við umhverfið sitt. Hvað er umhverfi? Hvað er náttúra? Hvað er maðurinn, er hann aðskilinn náttúru, ef náttúra er yfirhöfuð til? Hvernig líður mér, hver er minn þáttur í þessu öllu, hvernig þarf, og get ég breyst? Skipta einstaka neysluvenjur máli í stóra samhenginu? Hvað er lausnin við þessu öllu saman?

Viðburðurinn á facebook